Íslenska Byggingavettvangnum er ætlað að að efla innviði, auka samkeppnishæfni og efla samtal innan byggingageirans um hagsmunamál hans. Greina tækifæri til að auka framleiðni, auka skilvirkni, og nýsköpun. Þá er ætlunin að vettvangurinn stuðli að framþróun innan byggingageirans,  taki saman og miðli upplýsingum um geirann og stuðli að víðfermara framboði þjónustu, menntunar og þekkingar.

Lesa nánar

www.frettatiminn.is; Æ fleiri fullorðnir festast í foreldrahúsum

Ungt fólk hefur dregist aftur úr öðrum aldurshópum í efnahagslegu tilliti. Það naut ekki eins mikils efnahagslegs bata fyrir Hrun og þrengri tækifæri á atvinnumarkaði bitnuðu harðar á ungum en öðrum aldurshópum. Ein afleiðing þess er að ungt fólk í dag býr lengur í foreldrahúsum en áður hefur þekkst.

Hagstofan hefur tekið saman upplýsingar um fjölda ungs fólks sem býr í foreldrahúsum, en Fréttatíminn hefur á undanförnum mánuðum fjallað ítarlega um þessa samfélagsbreytingu og hvaða áhrif hún hefur á unga fólkið, fjölskylduna og foreldrana. Í tölum Hagstofunnar kemur fram að ungu fólki í þessum aðstæðum hefur fjölgað nokkuð eftir Hrun og einkum þá ungum konum á höfuðborgarsvæðinu. Þótt ungu konurnar í foreldrahúsum séu enn færri en ungkarlarnir þá sækja þær á.

Hrun og ferðamenn
Þegar litið er yfir þróun síðustu ára sést að vandi ungs fólks tengist ekki aðeins tekjumissi vegna minni atvinnu eða lægri launa. Vandinn verður vissulega til við Hrunið. Þá má sjá að ungu fólki í foreldrahúsum fjölgar. En breytingin er í raun meiri eftir 2013. Það má ekki skýra með aukinni skólasókn ungs fólks eða minni atvinnuþátttöku heldur tengist augljóslega bólunni á húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu.

Mest af leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur sögulega verið í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar. Þetta er svæðið þar sem mest aukning hefur verið á gistiheimilum og íbúðum sem leigð hafa verið út í gegnum airbnb og aðrar slíkar síður á netinu. Fjölgun ferðamanna hófst um 2011, sprakk út 2013 og hefur síðan verið jöfn og mikil. Áhrif ferðamanna á leigumarkaðinn hafa verið umtalsverð. Leigjendur, sem að stórum hluta eru ungt fólk, hafa lent í samkeppni við ferðamenn um húsnæði í þeim hverfum sem eftirsóttust eru af báðum hópum.